Innlent

Gjaldskrá Strætó helst óbreytt

Stjórn Strætó bs. samþykkti í morgun rekstraráætlun fyrir næsta ár. Áætlunin felur meðal annars í sér ákvarðanir um aukin framlög til reksturs strætisvagna árið 2009 en jafnframt þjónustuaðlögun sem nauðsynlegt verður að grípa til vegna erfiðra rekstraraðstæðna.

Í því felst að fyrirtækið hyggst standa vörð um þjónustu á annatímum en að dregið verður úr tíðni ferða utan annatíma.

 

,,Ennfremur er stefnt að því að ekki verði gripið til uppsagna starfsfólks fyrirtækisins og að gjaldskrá haldist óbreytt, en strætófargjöld hafa ekki hækkað frá því í ársbyrjun 2007," segir í tilkynningu.

Þar kemur einnig fram að þjónustuaðlögunin sé nauðsynleg vegna afar erfiðrar stöðu í rekstri Strætó bs. sem að öllu leyti er rakin til gríðarlegra kostnaðarhækkana í kjölfar gengisfalls krónunnar.

„Árferðið er erfitt eins og allir vita og vandinn sem byggðasamlagið stóð frammi fyrir gagnvart rekstraráætlun næsta árs var mikill. Sveitarfélögin sem að Strætó bs. koma ákváðu engu að síður að nú væri ekki rétti tíminn til að ráðast í mikinn niðurskurð í almenningssamgöngum né hækka gjaldskrá,“ segir Jórunn Frímannsdóttir, borgarfulltrúi og stjórnarformaður Strætó bs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×