Enski boltinn

Benitez vill 2,3 milljarða fyrir Crouch

Crouch er orðinn leiður á að sitja á tréverkinu
Crouch er orðinn leiður á að sitja á tréverkinu NordcPhotos/GettyImages

Rafa Benitez, knattspyrnustjóri Liverpool, vill fá um 2,3 milljarða króna fyrir framherjann Peter Crouch. Hinn leggjalangi Crouch hefur ekki átt fast sæti í liði Benitez og er farinn að hugsa sér til hreyfings í von um meiri spilatíma og sæti í enska landsliðinu.

"Crouch vill spila í hverri viku en veit að hér þarf hann að berjast um sæti í liðinu við Fernando Torres. Við erum alltaf að sjá að Portsmouth sé að hugsa um að kaupa hann en við höfum ekki fengið nein tilboð enn. Mér finnst ekki óraunhæft að fara fram á 15 milljónir punda fyrir hann," sagði Benitez í samtali við Sky í dag.

Hann gaf einnig upp að hann hefði átt viðræður við Martin O´Neill stjóra Aston Villa um möguleg kaup á miðjumanninum Gareth Barry, en segir þá tvo ætla að ræða málin betur í sumar.

Talað er um að Liverpool sé reiðubúið að greiða 10 milljónir punda fyrir enska landsliðsmanninn, en Martin O´Neill hefur látið hafa eftir sér að það sé fjarri lagi og segir það allt of lága upphæð fyrir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×