Erlent

Palin og McCain töluðust lítið við í kosningabaráttunni

MYND/AP

Sarah Palin, varaforsetaefni repúblikana í nýafstöðnum kosningum í Bandaríkjunum, var ekki fyrsti kostur Johns McCains forsetaefnis og þau ræddust lítið við í kosningabaráttunni. Þessu ljóstrar bandaríska blaðið Newsweek upp en blaðamenn þess fengu að fylgjast mjög náið með kosningabaráttu bæði demókrata og repúblikana í yfir eitt ár. Skilyrðin fyrir þessu voru þó að ekkert yrði skrifað fyrr en kosningarnar væru afstaðnar.

Í Newsweek kemur fram Joe Lieberman öldungardeildarþingmaður hafi verið fyrsti kostur McCains í varaforsetastólinn en ráðgjafar forsetaefnisins töldu hann of frjálslyndan í afstöðu sinni til ýmissa mála, þar á meðal fóstureyðinga. Slíkt myndi fæla burt trúaða kjósendur af hægri vængnum. Ýmis nöfn voru nefnd til sögunnar, þar á meðal nafn Mitts Romneys, sem sóttist einnig eftir því að verða forsetaefni repúblikana. Nafn Palin kom svo upp á endanum og þáði hún boðið um að verða varaforsetaefni McCains strax.

Hins vegar voru samskipti þeirra lítil í kosningabaráttunni að sögn Newsweek og hún gerði ýmislegt án þess að ráðfæra sig við McCain. Þannig réðst hún á Obama og sagði hann tengjast hryðjuverkamönnum og átti þar við tengsl Obama við William Ayers, fyrrverandi baráttumenn gegn Víetnamstríðinu. Enn fremur mun Palin hafa lagt til að þau McCain flyttu saman ræðu þegar ljóst var að repúblikanar hefðu tapað en það var ekki tekið í mál.

Það fylgir einnig umfjöllun Newsweek að þegar Joe Biden, varaforsetaefni demókrata, var tilkynnt um að Palin yrði varaforsetaefni repúblikana spurði Biden: „Hver er Pain?"








Fleiri fréttir

Sjá meira


×