Erlent

Lyfjanotkun við offitu eykst vestanhafs

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Bandarísk börn eru við það að setja heimsmet í notkun lyfja við offitu, háum blóðþrýstingi og blóðfitu.

Það er aldurshópurinn fimm til 19 ára sem er farinn að valda heilbrigðisstarfsmönnum vestanhafs þungum áhyggjum í orðsins fyllstu merkingu. Sykursýki, offita og allt of hár blóðþrýstingur sem afleiðing ofáts og langrar setu fyrir framan tölvu- og sjónvarpsskjái er farið að nálgast faraldur meðal bandarískra barna og unglinga.

Emily Cox, sem stjórnar rannsóknum á offitu í St. Louis og nágrenni, segir að fyrir tíu til 15 árum hafi ekki einu sinni verið kominn umræðugrundvöllur fyrir því sem nú er orðið alvarlegasta heilbrigðisvandamál ungs fólks í Bandaríkjunum. Cox stóð meðal annars fyrir rannsókn sem náði til þriggja milljóna barna og stóð í nokkur ár.

Á rannsóknartímanum jókst notkun úrtaksins á astmalyfjum vegna offitutengds astma, um 47 prósent. Eins varð mikil aukning í notkun sykyrsýkilyfja, einkum meðal stúlkna en notkun þeirra á slíkum lyfjum tvöfaldaðist á við notkun pilta. Um leið jókst notkun lyfja við ofvirkni með athyglisbresti um 40 prósent svo það er engin furða að bandarísk heilbrigðisyfirvöld séu í þungum þönkum þessa dagana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×