Íslenski boltinn

KSÍ harmar ummæli þjálfara Völsungs

Jónas Hallgrímsson. Mynd/123.is/volsungur
Jónas Hallgrímsson. Mynd/123.is/volsungur

Knattspyrnusamband Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ummæla Jónasar Hallgrímssonar, þjálfara Völsungs á Húsavík í 2. deildinni. Jónas hyggst láta af störfum vegna óánægju með dómgæslu í leikjum liðsins í sumar.

„Þeir eru bara hlæjandi og eyðileggja leikinn og eru bara stoltir af því," sagði Jónas meðal annars um dómarana í viðtali við vefsíðuna Fótbolti.net.

„Ég er búinn að lenda í KSÍ áður. Það er búið að hóta okkur áður að ef við höldum ekki kjafti þá skuli KSÍ sjá til þess að fótboltinn á Húsavík eigi sér ekki viðreisnar von," sagði Jónas um KSÍ en hér neðst er tengill á frétt um ummæli hans.

Hér má sjá yfirlýsinguna frá KSÍ:

„Knattspyrnusamband Íslands harmar þau ummæli sem Jónas Hallgrímsson, þjálfari Völsungs, lætur hafa eftir sér í fjölmiðlum varðandi dómara, önnur félagslið og aðra þá er að knattspyrnu koma á Íslandi og vísar þeim algerlega á bug. Mjög alvarlegar ásakanir koma fram í ummælum Jónasar og alveg ljóst að undir þeim verður ekki setið án viðbragða.

Samskipti KSÍ við Völsung hafa verið með miklum ágætum, þar hefur verið unnið gott starf og hafa þaðan komið margir af bestu knattspyrnumönnum landsins í gegnum árin. Sorglegt er því að þjálfari félagsins ráðist fram með rakalausum fullyrðingum og ásökunum sem beint er gegn dómurum, aðildarfélögum og aðilum innan KSÍ og geta á engan hátt talist settar fram af jafnvægi og yfirvegun."

Fyrr í dag sendi knattspyrnudeild Völsungs frá sér þessa yfirlýsingu:

„Stjórn knattspyrnudeildar Völsungs biður hlutaðeigandi aðila, KSÍ, knattspyrnudómara, leikmenn, forráðamenn og stuðningsmenn knattspyrnuliða á Íslandi afsökunar vegna þeirra ummæla sem höfð voru eftir þjálfara Völsungs Jónasi Hallgrímssyni í viðtali á fotbolti.net í gær. Umrætt viðtal er ekki með vitund, vilja né á ábyrgð knattspyrnudeildar Völsungs.

Knattspyrnuráð Völsungs."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×