Innlent

Borgarstjóri einn í flugvallarmálinu

Borgarstjóri er hornreka innan borgarstjórnar í afstöðu sinni til flugvallarins í Vatnsmýri. Könnun Stöðvar 2 meðal borgarfulltrúa leiðir í ljós að eini maðurinn sem vill flugvöllinn áfram í Vatnsmýri, skilyrðislaust, er æðsti maður borgarinnar.

Í apríl árið 2006 fyrir nokkrum meirihlutum í borgarstjórn lagði Ólafur F. Magnússon fram tillögu þess efnis að horfið yrði frá fyrirætlunum um brottflutning Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýrinni. Tillagan var snarfelld með öllum atkvæðum - nema Ólafs, 14-1.

En mannavalið í borgarstjórn hefur breyst síðan þá og eftir harkaleg ummæli borgarstjóra um sigurtillögu í Vatnsmýrinni um síðustu helgi, sem Sjálfstæðismenn og hann sjálfur hafa sagt vera oftúlkuð, vaknar sú spurning hvort afstaða borgarstjórnar til málsins hafi breyst.

Fréttastofa Stöðvar 2 sendi öllum borgarfulltrúum eftirfarandi spurningu í tölvupósti:

Vilt þú að flugvöllurinn fari eða verði áfram í Vatnsmýrinni?

Þeir sem vilja flugvöllinn burt - skilyrðislaust eru:

Dagur B. Eggertsson, Oddný Sturludóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir - Gísli Marteinn Baldursson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Svandís Svavarsdóttir.

Þeir sem vilja flugvöllinn burt - en með skilyrðum eru:

Óskar Bergsson - sem vill hann burt ef annað stæði finnst innan borgarmarkanna.

Þorleifur Gunnlaugsson - ef annar staður finnst sem fullnægir innanlandsfluginu jafnvel eða betur.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson - .þegar og ef jafngóður staður finnst. Hann er hins vegar andvígur flutningi innanlandsflugsins til Keflavíkur.

Kjartan Magnússon - vill líka að hann fari finnist annar jafngóður staður í nágrenni Reykjavíkur.

Einn borgarfulltrúi var ekki viðlátinn, en þess utan var borgarstjóri einn um að svara ekki. Skoðun hans hefur hins vegar verið öllum ljós - hann vill - einn kjörinna fulltrúa í borginni - flugvöllinn áfram í Vatnsmýri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×