Innlent

Friðrik var vaknaður

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Friðrik Sophusson er forstjóri Landsvirkjunar.
Friðrik Sophusson er forstjóri Landsvirkjunar.

Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, segist hafa verið vaknaður og búinn að fara í sturtu þegar 10 til 15 einstaklingar frá Saving Iceland heimsóttu hann klukkan rúmlega 7 í morgun.

Í tilkynningu frá samtökunum segir að þau hafi vakið Friðrik í morgun og afhent honum bréf í nafni Landsvirkjunar þar sem honum var gert að yfirgefa heimili sitt. Tilgangurinn var að mótmæla virkunaráformum fyrirtækisins í Þjórsá, samstarfi þess við Alcoa og fyrirhuguðu eignarnámi á svæðinu í kringum Þjórsá.

Friðrik segir að þau hafi afhent sér skemmtibréf. ,,Flest allir voru í einhverjum grímu- og trúðsbúningum og ég reyndi að tala við þau. Þá byrjaði fólkið að flauta á mig enda kom í ljós að fæstir skyldu íslensku og þá tók ég til þess ráðs að bjóða fulltrúum frá þeim á fund til mín klukkan hálf níu sem þau þekktust nú ekki."

Skömmu eftir níu mætti fjölmennur hópur fólks samtakanna í höfuðstöðvar Landsvirkjunar. ,,Ég veit ekki betur en að þau séu ennþá niðri. Hingað upp komu þrjár dömur og ein þeirra ætlaði að fá að fara á klósettið en ýtti þess í stað á brunaboða," segir Friðrik sem taldi í fyrstu að þar væri sendinefndin komin þótt seint væri. Svo var ekki.

Friðrik segir alvöru- og viljaleysi til að ræða málin einkenna viðbrögð og háttalag hópsins. ,,Þetta fólk er fyrst og fremst að skemmta sér. Framkoman er öll í þeim anda sem út af fyrir sig er í góðu lagi," segir Friðrik og bætti við að hann vildi koma því að hópurinn hafi ekki eyðilegt neinar eignir. Hvorki við heimili sitt né í húsnæði Landsvirkjunar.

- Saving Iceland vöktu Friðrik Sophusson




Fleiri fréttir

Sjá meira


×