Erlent

Mugabe hugleiðir stöðuna

Íbúar Zimbabwe bíða enn óþreyjufullir eftir því að tilkynnt verði um úrslit kosninganna sem fram fóru þar í landi á laugardag.

Eftir því sem tíminn líður aukast áhyggjur manna af kosningasvindli. Enn hefur ekkert verið gefið út um úrslit forsetakosninganna en auk þess var kosið á þing og sveitarstjórnastigi. Stjórnarandstæðingurinn Morgan Tsvangirai hefur þegar lýst yfir sigri en Robert Mugabe forseti hefur ekki viljað fallast á það og því dregst málið á langinn. Þó er ljóst að Mugabe og hans menn hafa farið illa út úr þingkosningunum og hafa nokkrir ráðherra hans misst þingsæti sín. Því telja flestir að Tsvangirai hafi farið með sigur af hólmi og það afgerandi.

Breska blaðið Guardian greinir frá því í morgun að neyðarfundur hafi verið haldinn í forsetahöllinni í gær. Þar hafi verið lagðir fram tveir kostir í stöðunni, að talningu atkvæða verði aflýst og Mugabe lýsi sig áfram forseta eða þá að sett verði herlög til þess að koma í veg fyrir að stjórnarandstæðingar nái völdum.

Heimildir Guardian herma að ekki hafi verið til umræðu á fundinum að viðurkenna ósigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×