Innlent

Líklega farið fram á áframhaldandi varðhald í hnífstungumáli

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer að líkindum fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir einum þremenninganna sem handteknir voru fyrir helgi vegna hnífstunguárásar á Hverfisgötu föstudaginn fyrir verslunarmannahelgi.

Mennirnir voru fyrir helgi úrskurðaðir í gæsluvarðhald í þágu rannsóknarhagsmuna en öryggismyndavélar sýndu að þeir hefðu verið á ferli nærri staðnum þar sem ráðist var á erlendan mann og hann stunginn hnífi. Hlaut hann djúpt sár í baki en er nú á batavegi.

Gæsluvarðhald yfir þremenningunum rennur út í dag. Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við Vísi að yfirheyrslum yfir þeim væri að mestu lokið en að líkindum yrði farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir einum mannanna. Endanleg ákvörðun yrði þó tekin síðar í dag.

Við þetta má bæta að enn hefur enginn verið handtekinn í tengslum við líkamsárás í Lækjargötu í fyrrinótt. Þar réðust tveir menn að þeim þriðja með brotinni flösku og fékk fórnarlambið stórt sár á hálsi fyrir neðan eyra. Vitni voru að árásinni og er rannsókn hennar í fullum gangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×