Íslenski boltinn

Fáum spjöld fyrir minni sakir

Elvar Geir Magnússon skrifar
Skagamenn fengu þrjár brottvísanir í síðasta leik.
Skagamenn fengu þrjár brottvísanir í síðasta leik.

„Mér finnst eins og við þurfum að brjóta mun minna af okkur en aðrir til þess að fá spjöldin framan í okkur," segir Guðjón Heiðar Sveinsson, leikmaður ÍA, í stuttu viðtali á heimasíðu félagsins.

Þrír Skagamenn fengu að brottvísun í síðasta leik liðsins sem var gegn KR. Þar á meðal Guðjón Þórðarson, þjálfari. ÍA hefur fengið 15 gul spjöld það sem af er í Landsbankadeildinni og 7 rauð spjöld.

„En þetta er að baki og við ætlum okkur að einbeita okkur að fótboltanum í þeim leikjum sem eftir eru og fá þau stig sem þarf til þess að ná okkur upp úr þessum öldudal sem við erum í núna. Til að það takmark náist verðum við allir sem einn að vera einbeittir í því sem við gerum inn á vellinum og fara eftir þem fyrirmælum sem lagt er upp með." sagði Guðjón Heiðar.

Guðjón Heiðar tók út leikbann gegn KR en hann verður með í kvöld þegar ÍA tekur á móti Grindavík í ansi mikilvægum leik. Skagamenn eru sem stendur í næstneðsta sæti deildarinnar en jafna Grindavík að stigum með sigri í kvöld.

Þrír leikir eru í deildinni í kvöld en auk leiksins á Skaganum þá mun Fylkir taka á móti Breiðabliki og á Kópavogsvelli eigast HK og Fjölnir við. Síðastnefndi leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×