Innlent

Það ber feigðina í sér spili ráðherrar frítt

Kristinn H. Gunnarsson.
Kristinn H. Gunnarsson.

Ríkisstjórnin þarf að leggja spilin á borðið og kynna stefnu sína og afla henni fylgis og hún verður að standa saman um hana, að mati Kristins H. Gunnarssonar þingmanns Frjálslynda flokksins. ,,Það ber feigðina í sér ef einstakir ráðherrar ætla að spila frítt."

Þoregður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í gær að stýrivaxtahækkun Seðlabankans væri óheppileg. Kristinn segir í pistli á heimasíðu sinni að afstaða Þorgerðar Katrínar geri það að verkum að stjórnarflokkarnir verða að svara því hvort þeir séu samstiga í málinu og hvort þingmeirihluti sé fyrir samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

,,Ríkisstjórn getur ekki talað tveimur tungum sérstaklega ekki í svo mikilvægu máli. Er menntamálaráðherra einn með þessa skoðun eða eru fleiri sem styðja ekki stýrivaxtahækkunina?" segir Kristinn.

Þá bendir Kristinn á að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, taldi fyrir skömmu tímabært að lækka stýrivexti til að örva hjól atvinnulífsins. ,,Það var gert. Ráðherann þarf nú að skýra hvers vegna gagnstæð aðgerð er nauðsynleg nú, þegar ekkert hefur breyst í horfum gagnvart atvinnulífinu. Voru það mistök að lækka stýrivextina?" spyr Kristinn og segir að svo virðist sem ríkisstjórnin hafi gert alvarleg mistök þá.

Aðalatriðið að mati Kristins er að það er ríkisstjórnin sem ræður ferðinni. Ekki Seðlabankinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×