Innlent

Geir segir stýrivaxtahækkun hafa verið óhjákvæmilega

MYND/Stöð 2
Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að stýrivaxtahækkun Seðlabankans í gær hafi verið óhjákvæmileg. Hún hafi ekki verið skilyrði af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins heldur samkomulag á milli ríkisstjórnarinnar og sjóðsins. Þetta er það sama og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og Árni Mathiesen fjármálaráðherra hafa sagt.

Geir átti í dag óformlegan fund með blaðamönnum í Ráðherrabústaðnum þar sem hann fór yfir ferð sína og fundi í Finnlandi í tengslum við þing Norðurlandaráðs fyrr í vikunni. Hann sagði lánabeiðni gagnvart hinum norrænu þjóðunum komna í farveg. Lögð væri áhersla á að málið gengi hratt fyrir en engar lánsupphæðir hefðu þó verið nefndar.

Þá sagði hann til skoðunar hjá norrænu ríkjunum að framlengja gjaldeyrisskiptasamninga á milli seðlabanka ríkjanna sem renna út um áramót. Íslendingar hafa þegar dregið hluta af þeim fjárhæðum gagnvart Seðlabanka Danmerkur og Noregs. Geir sagði enn fremur engan botn kominn í viðræður við Rússa.

Þá sagði ráðherra aðspurður að engin ákvörðun hefði verið tekin um það hvort Bretar kæmu í loftrýmiseftirlit í desember.








Tengdar fréttir

Stýrivaxtahækkun ekki skilyrði IMF heldur tillaga ríkisstjórnarinnar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir að hækkun Seðlabankans á stýrivöxtum í 18 prósent hafi ekki verið „ákvörðun eða skilyrði" Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þetta kom fram í viðtali við hana á RÚV í hádeginu. Árni Mathiesen fjármálaráðherra, tók í sama streng í samtali við fréttamann Stöðvar 2 í gær þar sem hann sagði engin skilyrði hafa verið sett fyrir þessu af hálfu sjóðsins. Hins vegar sé hækkunin í samræmi við það samkomulag sem gert var við IMF.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×