Innlent

Árni vill skoða upptöku færeyskrar krónu

MYND/Vilhelm

Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði það til á Alþingi í dag að skoðað yrði að taka upp færeyska krónu í samfloti með Færeyingum. Þessi ummæli lét hann falla í umræðum um þá ákvörðun færeyskra stjórnvalda að bjóða Íslendingum um 300 milljónir danskra króna í lán í kreppunni.

Árni fagnaði þessari framgöngu Færeyinga. „Færeyringar hafa alla tíð stutt okkur með ráðum og dáð og það er alveg klárt mál að á vettvangi alþjóðasamfélagsins voru Færeyingar okkur bestu og kannski einu sönnu vinir. Vinátta þeirra hefur aldrei verið háð skuldbindingum. Það þurfum við að meta, það þurfum við að rækta. Þess vegna þurfum við að gæta þess að styrkja Færeyinga í einu og öllu sem við getum, eins og hér hefur komið fram, virðulegi forseti," sagði Árni.

Þá gagnrýndi hann Evrópu- og evruumræðu síðustu daga og kallaði það froðulöður. Lagði hann til að farið yrði í að skoða það sem skipti máli, að létta róðurinn hjá þeim sem verst fara út úr ágjöfinni, hjá fjölskyldum og fyrirtækjum. Ekki ætti að góna á glimmer Evrópubandalagsins í nálægð eða framtíð. „Þess vegna er rétt að menn spóli sig aðeins niður. Það væri kannski ekki svo vitlaust að kanna það að taka upp færeyska krónu í samfloti með Færeyingum á jafnréttisgrundvelli en öll mál þarf að skoða," sagði Árni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×