Fótbolti

Enginn uppgjafartónn í Hitzfeld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alexander Frei og Ottmar Hitzfeld ganga af velli í gær.
Alexander Frei og Ottmar Hitzfeld ganga af velli í gær. Nordic Photos / AFP

Sviss tapaði í gær fyrir Lúxemborg í undankeppni HM 2010 og það á heimavelli. Hinn margreyndi landsliðsþjálfari Sviss, Ottmar Hitzfeld, sagði tapið eitt mesta áfallið á sínum ferli.

Hitzfeld er einn sigursælasti þjálfari þýsku knattspyrnunnar en hann gerði bæði Borussia Dortmund og Bayern München að Evrópumeisturum.

Sviss var gestgjafi á EM í sumar en þetta var fyrsti leikur Hitzfeld sem landsliðsþjálfari Sviss á heimavelli.

Flestir bjuggust við öruggum sigri Sviss enda Lúxemborg í 152. sæti styrkleikalista FIFA. Aðeins tveir atvinnumenn eru í leikmannahópi Lúxemborgar en liðið hafði alls aðeins unnið tvo leiki í undankeppni HM frá upphafi.

Sá þriðji bættist við í gær og sá fyrsti síðan 1972. Þangað til að Lúxemborg vann Hvíta-Rússland í undankeppni EM 2008 í fyrra hafði liðið tapað 55 leikjum í röð.

„Þegar maður hefur úr svo mörgum góðum leikmönnum að velja verður maður ef til vill vanur því að fá þrjú stig úr svona leikjum. Það er því sérstaklega sárt að þola svona niðurlægingu og mikið áfall fyrir mig og okkur alla," sagði Hitzfeld á blaðamannafundi í dag.

„Þetta er eitthvað versta tap sem ég hef mátt upplifa á mínum ferli. En ég er vanur því að takast á við tapleiki og verð nú að vera viss um að þessi reynsla styrki menn. Nú þarf liðið að þjappa sér saman og sýna enn meiri styrk en áður."

Sviss hefur komist í úrslitakeppni stórmóta þrjú skipti í röð. Liðið er nú með eitt stig eftir fyrstu tvo leikina í undankeppni HM 2010 en liðið gerði 2-2 jafntefli gegn Ísrael á útivelli um helgina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×