Erlent

Átta múslimar ætluðu að sprengja sjö flugvélar

Réttarhöld eru hafin í London yfir átta múslimum sem sakaðir eru um að hafa ætlað að sprengja sjö farþegavélar í loft upp á leiðinni frá Heathrow til Bandaríkjanna.

Málið hefur vakið mikla athygli á Bretlandseyjum í þessari viku en ef áttmenningunum hefðu tekist fyrirætlanir sínar hefði þetta orðið stærsta hryðjuverkaárásin á Vesturlöndunum frá því flogið var á World Trade turnana í New York árið 2001.

Samkvæmt skjölum saksóknarans í málinu var ætlunin að smygla sprengjuefnum um borð í flugvélarnar í fljótandi formi, setja þau saman er vélin var komin á loft og yfir Atlantshafið og sprengja síðan vélina skömmu fyrir lendingu í Bandaríkjunum.

Er málið komst upp í ágúst 2006 var ein afleiðing þess að bannað var að taka með sér vökva á flöskum um borð í flugvélar og er það bann enn í gildi að hluta til.

Ætlunin var að fremja hryðjuverk þessi á tímabilinu ágúst til október 2006. Í fórum eins sakborningana fannst minnisbók með upplýsingum um hvernig ætti að setja sprengjurnar saman ásamt áætlun um hvernig ætti að tímasetja sprengingarnar um borð.

Mennirnir átta sem hér um ræðir koma allir frá hverfum í austurhluta London.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×