Innlent

Nærri tveir tugir hraðamyndavéla settar upp á landinu

Jón Örn Guðbjartsson skrifar

Mikið átak hefst á næstu dögum í eftirliti með akstri ökumanna þegar tvær sjálfvirkar og fullkomnar hraðamyndavélar verða settar upp á þjóðvegi 1 í Hvalfjarðarsveit. Nærri tveir tugir myndavélar verða settar upp á næstu vikum og mánuðum.

Markmiðið með uppsetningu vélanna er fyrst og fremst að draga úr hraða en með þessu átaki er lögreglan að taka í notkun hátæknibúnað sem gerir henni kleift að fylgjast með hraðakstri með miklu betri árangri en áður.

Mælar vegagerðarinnar sýna að akstur á þjóðvegunum fer víða hátt yfir það sem lög leyfa. Uppsetning þessara véla er því afar kærkomin að mati Birgis Hákonarsonar hjá Umferðarstofu.

Hann segir að myndavélarnar séu stafrænar og sendi myndir símleiðis í höfuðstöðvar lögreglunnar á Snæfellsnesi sem mun hafa yfirsjón með fyrstu vélunum.

Þótt myndavélarnar nýju séu að mestu miðaðar við að fylgjast með hraða þá gætu þær hugsanlega nýst við að finna í leiðinni þá ökumenn sem vanrækja að nota bílbelti og hina sem tala í farsíma undir stýri.

Fjöldi annarra véla verður settur upp á næstu mánuðum en lögregla og umferðastofa einbeita sér að því að draga úr hraða á hættulegustu köflunum á þjóðvegum landsins þar sem banaslys hafa orðið og alvarleg slys sem kostað hafa örkuml.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×