Innlent

Landlæknir veitti aðgang að gögnum í óleyfi

MYND/Hari
Landlæknisembættið veitti aðgang að persónuupplýsingum um fóstureyðingar kvenna án þess að leyfi væri fyrir því. Upplýsingarnar átti að nota í framhaldsrannsókn. Embættið segir um mistök að ræða.

Um var að ræða framhald á rannsókn, meðal kvenna sem farið hafa í fóstureyðingu, sem framkvæmd var árið 1999. Leyfi fékkst fyrir þeirri rannsókn en konunum sem tóku þátt í henni var sagt að öllum gögnum yrði eytt eigi síðar en 1. október sama ár. Ótvírætt var gefið í skyn að gögnin yrðu ekki notuð í öðrum tilgangi en í tiltekna rannsókn. Ekki var staðið við loforðið.

Það var svo í lok síðasta mánaðar sem Persónuvernd hafnaði beiðni sem henni hafði borist frá landlækni um að rannsakendur fengju gögn til að framkvæmda framhaldsrannsókn. Í úrskurði Persónuverndar vegna málsins kemur fram að á meðan beðið var eftir niðurstöðu Persónuverndar þá hafi Landlæknisembættið veitt aðgang að gögnunum. En það hafi verið fyrir mistök. Persónuvernd hafnaði beiðni landlæknis þar sem sem ekki stóð til að láta umræddar konur vita af rannsókninni og fá samþykki þeirra. Auk þess sem konunum hafði á sínum tíma verið heitið að farið yrði með upplýsingarnar sem trúnaðarmál og þeim eytt eftir að þær hefðu verið notaðar.

Öllum gögnunum hefur nú veirð eytt og landlæknir gert stjórn Persónuverndar grein fyrir þeim ráðstöfunum sem hann hefur gripið til til að koma í veg fyrir að slíkt endurtæki sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×