Innlent

Fernt flutt á sjúkrahús eftir árekstur - Hellisheiði ófær

MYND/Stöð 2

Fernt var flutt á sjúkrahús í Reykjavík eftir að jeppa var ekið aftan á fólksbíl á Hellisheiði á fjórða tímanum í dag. Að sögn vaktahafandi læknis á slysadeild var fólkið allt í fólksbílnum, þar af eitt barn, og gengst það nú undir rannsókn.

Blindhríð var á vettvangi þegar slysið varð og sögðu sjúkraflutningamenn að fólkið hafi verið orðið kalt en 7-8 stiga frost var á heiðinni og mikið hvassviðri. Þurfti að kalla út björgunarsveitarmenn til að aðstoða sjúkrabílinn yfir heiðina og er heiðin nú lokuð. Er fólki bent á að fara Þrengslin.

Þá er enn ófært á Holtavörðuheiði en þar hafa björgunarsveitir aðstoðað um tug bíla sem fastir voru á heiðinni, en sumir þeirra voru ekki búnir til þess að leggja á heiðina í færð eins og í dag. Auk þess er Brattabrekka einnig ófær en fólki er bent á að fara Laxárdalsheiði og Heydal.

Björgunarsveitir frá Borgarnesi voru sömuleiðis kallaðar út til að sækja norska ferðamann sem fastur ver í bíl sínum við Ölver.

Enn fremur er Víkurskarð enn ófært og beðið er átekta með mokstur og þá lokar snjóflóð sem féll í dag Súðavíkurhlíð. Slæmt veður er á Norðurlandi, Norðausturlandi og Austurlandi og beinir Slysavarnafélagið Landsbjörg því til fólks að leggja ekki í ferðalög, og þá sérstaklega ekki á heiðar, á illa útbúnum smábílum.

Vegagerðin segir auk þess að ekkert ferðaveður sé milli Djúpavogs og Hafnar í Hornafiði og ekki heldur í Mývatnssveit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×