Erlent

Byrjað að slátra kalkúnum á býlinu í Suffolk-héraði

Yfirvöld í Bretlandi hafa þegar hafist handa við að slátra þeim 160 þúsund kalkúnum sem aldir hafa verið á kalkúnabúinu í Suffolk-héraði þar sem fuglaflensa af H5N1-stofni greindist í gær. Eins og kunnugt er getur veiran borist í menn og dregið þá til dauða en sérfræðingar segja litlar líkur á því að það gerist nú.

Yfirvöld hafa einangrað svæði í þriggja kílómetra radíus í kringum búið og bannað alla flutninga á alifuglum á því svæði til þess að koma í veg fyrir að veiran berist víðar. Kalkúnarnir sem slátrað hefur verið verða fluttir í einangruðum bílum á sérstakan stað þar sem hræin verða brennd.

Þetta er í fyrsta sinn sem fuglalflensa af þessum banvæna stofni finnst á alifuglabúi á Bretlandi en um 2600 kalkúnar reyndust vera smitaðir af veirunni samkvæmt rannsókn á vegum Evrópusambandsins.

Talsmaður Bernarnd Matthews, stærsta kalkúnaframleiðanda Evrópu sem rekur búið í Suffolk, sagði ekkert af sýktu kjöti hafa farið í búðir og því stafaði almenningi ekki hætta af smitinu. Talið er líklegast að fuglaflensan hafi borist í kalkúnana úr villtum fugli enn rannsókn á því stendur yfir hjá embætti yfirdýralæknis í Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×