Enski boltinn

Eriksson setur líka boxbann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eriksson vill að sínir menn hvílist vel.
Eriksson vill að sínir menn hvílist vel. Nordic Photos / Getty Images

Sven-Göran Eriksson hefur bannað leikmönnum sínum í Manchester City að horfa á boxbardaga Ricky Hatton og Floyd Mayweather aðfaranótt sunnudagsins.

Hann fylgir þar með í fótspor Rafael Benitez, knattspyrnustjóra Liverpool, sem gerði slíkt hið sama.

Þetta er þó öllu athyglisverðara þar sem Hatton er dyggur stuðningsmaður Manchester City og margir leikmanna liðsins eru vinir hans.

City á hins vegar fyrir höndum mikilvægan leik gegn Tottenham á sunnudaginn en bardaginn byrjar klukkan fjögur um nóttina.

„Ég mun segja mínum leikmönnum að sofa," sagði Eriksson. „Einhverjir starfsmenn munu horfa á leikinn en ekki leikmennirnir. Þeir þurfa að vera úthvíldir fyrir mikilvægan leik daginn eftir. Vonandi verður bardaginn sýndur aftur á sunnudagsmorguninn og þeir geta horft á bardagann þá."

Eriksson óskaði þó Hatton góðs gengis. „Ég vona að hann vinni og ég held að hann geti það."

Hatton klæðist ljósbláum stuttbuxum í bardögum sínum og lagið Blue Moon hljómar þegar hann gengur inn í hringinn, til heiðurs Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×