Enski boltinn

Benitez: Mascherano fer hvergi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafael Benitez, stjóri Liverpool.
Rafael Benitez, stjóri Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

Rafael Benitez, knattspyrnustjóri Liverpool, kveðst þess fullviss að Javier Mascherano verði áfram hjá félaginu eftir að lánssamningur hans rennur út.

Formlega er Mascherano í láni hjá Liverpool frá West Ham en eignarhaldsfélagið Media Sports Investments á samningarétt Mascherano. Liverpool þyrfti því að semja við fyrirtækið sem Íraninn Kia Joorabchian er í forsvari fyrir.

Benitez hefur áður reynt að kaupa leikmanninn en eigendur Liverpool, Tom Hicks og George Gillett, hafa komið í veg fyrir það.

„Hann sagði mér að hann vildi vera hér áfram og ég hef því trú á því að hann fari hvergi," sagði Benitez í dag.

„Mascherano er góður leikmaður og hann er að spila vel þessa stundina. Það eru ekki margir leikmenn í heimsklassa í hans stöðu en hann er einn af þeim."

Manchester City mun vera að undirbúa sautján milljón punda tilboð í Mascherano.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×