Enski boltinn

Barton óttast ekki að lenda í grjótinu

Joey Barton hefur verið iðinn við að koma sér í vandræði innan sem utan vallar
Joey Barton hefur verið iðinn við að koma sér í vandræði innan sem utan vallar NordicPhotos/GettyImages

Joey Barton, leikmaður Newcastle, segist ekki óttast að þurfa að sitja í fangelsi ef hann verður sakfelldur fyrir líkamsárás á fyrrum liðsfélaga sinn hjá Manchester City.

Barton hefur haldið fram sakleysi sínu eftir að Ousmane Dabo, fyrrum félagi hans hjá City, kærði hann fyrir líkamsárás eftir að þeir lentu í áflogum á æfingasvæði félagsins í vor. Réttarhöld í málinu hefjast í júní næsta sumar.

"Ef maður á að fara í fangelsi fyrir að verja sig, verður maður víst að sætta sig við það. Mér er samt alveg sama. Ég er ekki hræddur, því ég hef ekki gert neitt af mér," sagði Barton í samtali við Inside Sport, sem er þáttur á vegum breska ríkissjónvarpsins. Barton gæti fengið allt að fimm ára fangelsi ef hann verður sakfelldur.

"Ég sef ágætlega á nóttinni því ég veit að ég gerði ekkert af mér. Ég er ekki slæmur maður og ég er viss um að ef ég væri ekki knattspyrnumaður í úrvalsdeildinni - myndi enginn vera að velta sér upp úr því sem ég hef gert," sagði Barton og bætti við að orðspors síns vegna væri hann skotmark fjölmiðla.

"Þetta er kannski mér að kenna af því ég hef komið þessu orðspori af stað. Það má samt ekki slátra mönnum sem eru að reyna að bæta sig og einn daginn mun ég segja frá öllu þessu í smáatriðum," sagði Barton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×