Enski boltinn

Bolton lagði United - Markaveisla á Goodison

Bolton vann annan sigur sinn á leiktíðinni í dag
Bolton vann annan sigur sinn á leiktíðinni í dag AFP

Bolton vann í dag óvæntan 1-0 sigur á Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Nicolas Anelka skoraði eina mark leiksins og tryggði Bolton mikilvæg stig.

United var betri aðilinn í síðari hálfleiknum og sótti án afláts, en allt kom fyrir ekki og liðið tapaði fyrsta leiknum sínum á þessum velli síðan árið 1978. Bolton hafði ekki unnið sigur í síðustu 9 leikjum sínum. Sir Alex Ferguson missti stjórn á skapi sínu og hellti sér yfir dómarana og var vísað upp í stúku fyrir vikið.

Á sama tíma vann Arsenal 2-0 sigur á Wigan með mörkum frá William Gallas og Tomas Rosicky á 83. og 85. mínútu og því er liðið með þriggja stiga forystu á United á toppnum og á leik til góða.

Portsmouth heldur sínu striki og lagði Birmingham 2-0 á útivelli með mörkum Sulley Muntari og Niko Kranjcar.

Everton valtaði yfir Sunderland 7-1 á heimavelli þar sem þeir Yakubu sog Tim Cahill skruðu tvö mörk og þeir Steven Pienaar, Andy Johnson og Leon Osman eitt hver. Dwight Yorke skoraði mark Sunderland þegar hann minnkaði muninn í 3-1 skömmu fyrir hlé.

Aston Villa burstaði Middlesbrough á útivelli 3-0 þar sem þeir Carew, Mellberg og Agbonlahor voru á skotskónum og ljóst að stóllinn er farinn að hitna duglega undir Gareth Southgate, stjóra Boro.

Manchester City stal sigrinum gegn Reading með marki Stephen Ireland í uppbótartíma. Brynjar Björn Gunnarsson og Ívar Ingimarsson voru á sínum stað í liði Reading. Martin Petrov kom City yfir á 11. mínútu en James Harper jafnaði fyrir Reading áður en Ireland stal senunni í lokin.

Leikjum dagsins lýkur svo með viðureign botnliðs Derby og Chelsea klukkan 17:15 sem sýndur er beint á Sýn 2.

Staða efstu liða á Englandi:

1. Arsenal 33 stig í 13 leikjum

2. Man Utd 30 stig í 14 leikjum

3. Man City 29 stig í 14 leikjum

4. Liverpool 27 stig í 14 leikjum

5. Portsmouth 26 stig í 14 leikjum

6. Chelsea 25 stig í 13 leikjum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×