Innlent

Össur í leiguvél REI - Ráðuneytið borgar reikninginn

Andri Ólafsson skrifar

Eins og fram kom á Vísi í dag fer Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra með sendifulltrúum REI til Indónesíu og Filippseyja um helgina þar sem fram munu fara viðræður í tengslum við tugmilljarða verkefni á sviði jarðvarma.

Össur mun í leiðinni endurgjalda heimsókn indónesískra erindreka sem komu hingað til lands á síðasta ári.

REI er búið að taka á leigu einkaþotu til að flytja föruneyti sitt frá Jakarta, höfuðborgar Indónesíu til Manilla, höfuðborgar Filippseyja.

Að sögn Hafliða Helgasonar, sem sér um samskiptamál fyrir REI er þetta gert til þess að spara tíma.

"Það er ekki hægt að fljúga beint með áætlunarflugi frá Jakarta til Manilla. Þess vegna brugðum við á þetta ráð," segir Hafliði.

Össur Skarphéðinsson verður eðli málsins samkvæmt farþegi í einkaþotu REI manna frá Jakarta til Manilla en Össur segir í samtali við Vísi að hann hafi farið fram á að sinn hluti reikningsins vegna ferðarinnar verði sendur Iðnaðarráðuneytinu.

Þar með talinn reikningurinn fyrir sinn hluta af einkaþotunni.

Ekki liggur enn fyrir hvernig kostnaðinum verði skipt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×