Erlent

40 ár frá falli Che Guevara

Á þessum degi fyrir 40 árum síðan lést byltingarleiðtoginn Ernesto Che Guevara eftir bardaga við stjórnarher Bolívíu þar sem hann var handtekinn og síðan drepinn. Þessara tímamóta er minnst víða í Suður-Ameríku og sérstaklega þó á Kúbu.

Um 10.000 manns komu saman við grafhvelfingu Che Guevare í bænum Santa Clara þar sem hann barðist einu sinni í byltingunni á Kúbu. Raul Castro núverandi leiðtogi Kúbu, setti athöfnina með minningarorðum frá Fidel bróður sínum þar sem Fidel sagði að hann hneigi sig af virðingu og þakklæti fyrir hinum óviðjafnanlega bardagamanni sem féll í valinn fyrir 40 árum síðan.

Aðrir sem tóku til máls voru Aleida Guevara dóttir Che sem sagði að vinstrisveiflan í stjórnmálum víða í álfunni um þessar mundir sýndi að draumar föður hennar og þeirra sem fylgdu honum að málum væru nú að rætast.

Í Bolívíu heimsótti forseti landsins, Evo Morales, stað þann sem Che var fyrst grafinn á eftir dauða sinn. "Che lifir," sagði Morales og bætti því við að hetjuleg barátta hans og annarra byltingarmanna myndi halda áfram þar til tækist að breyta kapitalismanum. Fyrir utan þessara minningarathafnir var Che sérstaklega minnist í löndum á borð við Venesuela og Argentínu, heimalands Che. Þar hefur hann í gegnum tíðina fengið á sig yfirbragð dýrlings fremur en byltingarmanns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×