Enski boltinn

Elano er leikmaður 9. umferðar

Elano fór hamförum á ný með City um helgina
Elano fór hamförum á ný með City um helgina NordicPhotos/GettyImages
Brasilíumaðurinn Elano fór hamförum með Manchester City aðra vikuna í röð þegar hann skoraði tvö marka liðsins í 3-1 sigri á Middlesbrough. Fyrir viku síðan héldu breskir fjölmiðlar ekki vatni yfir frammistöðu Elano gegn Newcastle United, en hann var enn betri nú um helgina.

City hélt áfram að koma á óvart um helgina og hélt þriðja sætinu með öruggum sigri á Boro. Fyrsta markið hjá Elano kom eftir fallega hælsendingu frá Michael Johnson við vítateiginn og annað markið hans kom eftir stórkostlega aukaspyrnu þar sem Mark Schwarzer markvörður átti aldrei möguleika á að verja.

Byrjun Sven-Göran Eriksson með City hefur heldur betur komið á óvart í haust og það er ekki síst Brasilíumanninum skemmtilega að þakka, en hann er orðinn æ meira áberandi í leik liðsins.

"Manchester er æðisleg borg," sagði Elano nýlega í viðtali við Guardian, en vel má vera að frammistaðan á vellinum hafi hjálpað honum að fóta sig við nýjar aðstæður eftir að hann kom frá Úkraínu.

"Elano hefur alltaf verið mjög mikilvægur leikmaður fyrir okkur. Ef við látum hann hafa boltann vitum við að hann mun halda honum og nú er hann farinn að skora mörk - svo við getum ekki beðið um mikið meira frá honum. Hann er nú kominn í betra form og hamast á fullu í æfingasalnum, sem er mjög gott," sagði Eriksson, en Elano var ekki í sérstaklega góðu formi þegar hann kom til félagsins.

"Það er óvíst að hann nái að spila svona vel í hverjum einasta leik, en það kæmi mér ekki á óvart þó hann ætti eftir að eiga betri leiki en þennan. Það þarf svo sannarlega ekki að kenna þessum manni neitt í knattspyrnufræðunum," sagði Eriksson ánægður.

Nafn: Elano Ralph Blumer



Fæddur:
14. júní, 1981, í Sao Paulu í Brasilíu.



Félög:
Guarani, Internacional, Santos, Shaktar Donetsk og Manchester City.

Númer: 11



Fleiri fréttir

Sjá meira


×