Enski boltinn

Defoe hélt framhjá með tvífara kærustunnar

NordicPhotos/GettyImages

Helgarblaðið News of the World birti í gær safaríka frétt af framherjanum Jermain Defoe hjá Tottenham þar sem segir að hann hafi notað frumlegar aðferðir við að halda framhjá kærustu sinni.

Kærastan hans Charlotte Meares komst að því að hann væri að halda framhjá þegar móðir hennar sá Defoe í sjónvarpinu með dömu upp á arminum á leið inn á næturklúbb í London. Móðirin spurði dóttur sína út í kvöldið á klúbbnum, en Cameron brást þá hissa við og sagðist alls ekki hafa komið á klúbbinn.

Það kom svo upp úr kafinu að fylgdardama Defoe á klúbbnum var hin spengilega Rachel Cameron - en hún er nauðalík kærustunni. Svo lík, að meira að segja móðir Meares þekkti þær ekki í sundur í sjón.

Vinkona Meares sá líka viðhaldið einu sinni með Defoe á leik með Tottenham og hringdi þá í vinkonu sína og spurði hana af hverju hún hefði verið í svona stuttu pilsi - en þá kom í ljós að unnustan kom aldrei á leikinn.

Heimildamaður News of the World gengur svo langt að segja að Defoe hafi sjálfur ruglast á þeim einu sinni þegar hann bað viðhaldið að giftast sér. Það er því útlit fyrir að Defoe gangi betur að skora utan vallar en innan hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×