Enski boltinn

Wenger: Leikmannakvóti myndi drepa úrvalsdeildina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arsene Wenger notar mikið af erlendum leikmönnum.
Arsene Wenger notar mikið af erlendum leikmönnum. Nordic Photos / Getty Images

Arsene Wenger er ekki hrifinn af áætlunum Sepp Blatter að takmarka fjölda erlendra leikmanna í byrjunarliðum félaga.

Blatter vill að hvert félag noti aðeins fimm erlenda leikmenn í byrjunarliði sínu og hyggst berjast fyrir því máli í Evrópusambandinu. Vinnulöggjöf sambandsins myndu stangast á við slíkan leikmannakvóta.

„Þetta myndi drepa ensku úrvalsdeildina,“ sagði Wenger. „Deildin yrði sannarlega ekki lengu vera sú besta í heimi. Ég yrði ekki ánægður ef einhver segði mér að ég gæti ekki spilað af því ég væri ekki fæddur á réttum stað.“

Blatter vill að félög hlúi betur að yngri leikmönnum sínum og telur að leikmannakvóti sé rétta leiðin til þess.

Talsmaður ensku úrvalsdeildarinnar er þó ekki ánægður með ummæli Blatter. „Félögin eyða miklum fjármunum í akademíur sínar. Leikmenn sem útskrifast þaðan skila sér í byrjunarliðin og í landsliðin. Það er betra að fá góða leikmenn í gegnum slíkt starf heldur en að neyðast til að nota leikmenn sem eru ekki tilbúnir í ensku úrvalsdeildina,“ sagði talsmaðurinn, Dan Johnson.

Wenger hefur tvívegis notað enskan leikmann í byrjunarliði sínu á leiktíðinni. 


Tengdar fréttir

Blatter berst fyrir leikmannakvóta

Sepp Blatter, forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, ætlar að berjast fyrir því að fjöldi erlendra leikmanna verði takamarkaður í knattspyrnuliðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×