Enski boltinn

Reading er með bestu framherja í heimi

Dave Kitson hefur ýmislegt til síns máls þegar horft er í verðmiðann á framherjum Reading
Dave Kitson hefur ýmislegt til síns máls þegar horft er í verðmiðann á framherjum Reading NordicPhotos/GettyImages

Dave Kitson, framherji Reading, segir liðið hafa á að skipa bestu framherjum í heiminum þegar haft er í huga að þeir kostuðu félagið ekki nema rúma milljón punda samanlagt. Það er til að mynda meira en tíu sinnum lægri upphæð en Tottenham greiddi fyrir varamanninn Darren Bent í sumar.

Félögin í úrvalsdeildinni greiddu milljarða fyrir stjörnuleikmenn í framlínur sínar í sumar. Liverpool greiddi yfir 20 milljónir fyrir Fernando Torres, Manchester United greiddi svimadi upphæðir fyrir þá Nani og Anderson - og Tottenham greiddi 16,5 milljónir punda fyrir Darren Bent, sem lítið hefur sýnt það sem af er leiktíðinni og húkir mest á varamannabekknum.

"Það er í raun fáránlegt að horfa á þær fjárhæðir sem úrvalsdeildarliðin eru að eyða í sóknarmenn og við þetta verðum við hjá Reading að keppa. Við eigum ekki möguleika á að borga brotabrot af þessum upphæðum fyrir leikmenn og stjórinn þarf að reyna að finna góða menn sem kosta það sem stjórnin er tilbúinn að eyða í leikmenn," sagði Dave Kitson í samtali við Sun - en hann sjálfur kostaði aðeins 150,000 pund þegar hann kom frá Cambridge á sínum tíma.

"Leroy (Lita) kostaði Reading um milljón punda og það má því segja að við fjórir framherjarnir höfum kostað félagið innan við 1,5 milljónir punda fyrir leikmenn sem hafa sannað sig í deildinni. Þess vegna er Reading svona góður klúbbur - því við fengum tækifæri til að sanna okkur. Við erum bestu framherjar í heiminum þegar tekið er mið af verðmiðanum og það sama má segja um hinar stöðurnar í liðinu. Varnarlínan kostar líklega um milljón og miðjan kannski tvær milljónir," sagði Kitson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×