Enski boltinn

Það nær enginn betri árangri en ég

Martin Jol vill meina að hann sé rétti maðurinn til að stýra Tottenham áfram
Martin Jol vill meina að hann sé rétti maðurinn til að stýra Tottenham áfram NordicPhotos/GettyImages

Martin Jol, stjóri Tottenham, hefur varað stjórn félagsins við því að reka sig úr starfi. Hann segir að með því gæti stjórnin gert mikil mistök og aðeins sett liðið aftur um nokkur ár í áformum sínum.

"Stuðningsmennirnir vita hvað það er erfitt að skipta um stjóra og að það gæti orðið til þess að liðinu færi aftur um nokkur ár. Ég vona að fólk sé raunsætt og geri sér grein fyrir að þó auðvelt sé að finna nýjan stjóra - er ekki öruggt að hann skili betri árangri. Ef sá ætti að gera betur, yrði hann að skila liðinu í fjórða sætið," sagði Jol í samtali við breska ríkissjónvarpið. Hann segir stöðu sína ekki auðvelda um þessar mundir vegna sífelldra slúðurfrétta um að hann verði rekinn.

"Það er ekki auðvelt að vera í þeirri aðstöðu að verið sé að tala um brottrekstur þinn á hverjum degi, en ég get ekkert að því gert. Það er mikilvægast að halda áfram á þeirri braut sem við höfum verið á. Við höfum náð fimmta sætinu tvö ár í röð og ég held að enginn annar myndi skila betri árangri með þetta lið.

Við höluðum inn stig, unnum níu leiki í Evrópukeppninni og náðum aftur inn í Evrópukeppni í gegn um deildina. Þetta hafði ekki gerst í aldarfjórðung hjá félaginu. Stuðningsmennirnir gera sér grein fyrir þessu og kunna að meta það sem ég er að gera - og það er jákvætt," sagði Hollendingurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×