Enski boltinn

Okocha ætlar að slá Chelsea út úr bikarnum

Okocha gerði gott mót með Bolton á sínum tíma
Okocha gerði gott mót með Bolton á sínum tíma NordicPhotos/GettyImages

Nígeríumaðurinn Jay-Jay Okocha segist ætla að gera allt sem í hans valdi stendur til að hjálpa nýja liðinu sínu Hull að slá Chelsea úr enska deildarbikarnum í kvöld. Leikurinn verður sýndur beint á Sýn.

Okocha hefur eflaust ekki reiknað með því fyrir skömmu að hann ætti eftir að spila gegn Chelsea aftur á ferlinum, en þessi skemmtilegi 34 ára gamli miðjumaður var látinn fara frá Bolton eftir leiktíðina 2006. Hann fékk þá risasamning fyrir að spila með liði Qatar Sports Club, en það hefur lítið gert fyrir ferilinn hans. Okocha hefur spilað fjóra leiki til þessa með Hull.

"Það er frábært að geta hlakkað til þess að spila við Chelsea og þetta er ein af ástæðunum fyrir því að ég ákvað að koma aftur til Englands. Ég græddi góðan pening á því að spila í Katar en það var ekki það sama og að spila á Englandi. Það verður frábært fyrir alla hjá Hull að mæta liði eins og Chelsea og við hlökkum mikið til," sagði Okocha.

Leikurinn hefst klukkan 18:40 í beinni á Sýn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×