Fótbolti

Björgum EM - Austurríki úr keppni

Þúsundir stuðningsmanna austurríska knattspyrnulandsliðsins hafa nú skrifað undir beiðni til knattspyrnusambandsins þar sem þeir fara þess á leit að liðið verði dregið úr keppni á EM á næsta ári, en keppnin verður einmitt haldin í Austurríki og Sviss.

Stofnuð hefur verið sérstök heimasíða þar sem yfir 4000 Austurríkismenn hafa skráð sig og skorað á knattspyrnusambandið að draga landsliðið úr keppninni á þeim forsendum að það sé ekki rétt að misbjóða áhorfendum með því að láta þá horfa upp á skelfilega spilamennsku liðsins.

Austurríkismenn hafa ekki unnið sigur í átta landsleikjum í röð og mæta grönnum sínum Svisslendingum í vináttuleik þann 13. október næstkomandi.

Stuðningsmennirnir sem mæla fyrir uppátækinu segja að það sé algengara að loftsteinar lendi á jörðinni en að landsliðið sýni takta á vellinum. "Við erum ekki að þessu til að gagnrýna þjálfarann eða leikmennina. Okkur finnst bara leikur liðsins vera móðgun við knattspyrnuáhugamenn. Maður dettur í djúpt þunglyndi við að horfa á liðið spila," sagði einn þeirra sem opnuðu heimasíðuna.

Einnig hafa verið gefnir út bolir af sama tilefni með áletruninni "Austurríkis-lausa Evrópukeppni" og þá má sjá á myndinni sem fylgir fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×