Enski boltinn

Ég verð alltaf sá sérstaki

NordicPhotos/GettyImages

Jose Mourinho hefur ekki látið dramatíkina hjá Chelsea hafa áhrif á sig og segist enn vera "Sá Sérstaki." Hann segir að ef stuðningsmenn Chelsea hefðu fengið að ráða hefði sér verið boðinn 20 ára samningur hjá félaginu.

Mourinho lýsti því yfir að hann væri "Sá Sérstaki" þegar hann tók við Chelsea og átti eftir að bakka þessa yfirlýsingu upp með sex titlum á þremur árum.

"Ég tók mikla áhættu með þessari yfirlýsingu á sínum tíma, en ég stóð við hana og ég veit að mikið af fólki myndi skrifa upp á það. Mér finnst ég enn vera sérstakur, ég náði góðum árangri og er ánægður með þann árangur sem náðist. Ég reyni líka að muna eftir því góða frekar en því slæma og þegar kemur að góðum minningum - er af nægu að taka," sagði Mourinho.

"Ég grét þegar ég kvaddi leikmennina því ég hef alltaf sagt að ég hafi átt tvær fjölskyldur, eina heima og eina í vinnunni. Leikmennirnir og stuðningsmennirnir munu aldrei gleyma mér því ég sendi þá aldrei grátandi frá Stamford Bridge - þar töpuðum við aldrei leik í deildinni. Ef stuðningsmennirnir hefðu fengið að ráða hefði ég fengið 20 ára samning. Fólk kunni vel við mig og samband mitt við stuðningsmennina var mjög sérstakt," sagði Portúgalinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×