Enski boltinn

Úrvalsdeildin kannar hvort Grant sé hæfur

NordicPhotos/GettyImages

Forráðamenn sambands knattspyrnustjóra á Englandi bíða nú eftir skýrslu frá ensku úrvalsdeildinni um það hvort Avram Grant sé með tilskilin leyfi til að stýra liði í deildinni. Breskir fjölmiðlar hafa leitt líkum að því að Grant sé ekki með næg réttindi til að stýra Chelsea.

"Við erum að sjálfssögðu talsmenn þess að séu sem hæfastir stjórar í deildinni og það þýðir að þeir verði að hafa leyfi til að starfa," sagði Howard Wilkinson, forsvarsmaður knattspyrnustjórasamtakanna.

"Ég held satt best að segja að forkálfar úrvalsdeildarinnar séu bara enn ekki komnir með það á hreint hvort Grant hefur pappíra upp á vasann til að mega starfa sem knattspyrnustjóri. Það er annars ekki í okkar verkahring að segja hverjir mega vinna og hverjir ekki, en það er ómögulegt að segja til um hvort Grant hefur þessi leyfi," sagði Wilkinson.

Hann segir ábyrgðina liggja hjá úrvalsdeildinni.

"British Airways byrjar ekki á því að ráða flugmann í vinnu og spyrja hann hvort hann sé með flugréttindi. Það myndi sannarlega hjálpa ef félögin í úrvalsdeildinni gengju úr skugga um að allt væri í lagi áður en þau ráða sér knattspyrnustjóra," sagði hann.

Eins og allir vita leikur Chelsea líka í Meistaradeild Evrópu og sumir fjölmiðlar hafa gengið svo langt að halda því fram að Chelsea verði vísað úr keppninni ef í ljós kemur að Avram Grant hafi ekki full réttindi til að þjálfa. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×