Enski boltinn

Stjórn Tottenham enn á bak við Jol

Martin Jol
Martin Jol NordicPhotos/GettyImages

Martin Jol segist enn njóta stuðnings stjórnar Tottenham Hotspur þrátt fyrir að lið hans sé í fallsæti í ensku úrvalsdeildinni. Stjórnarformaðurinn Daniel Levy talaði við Jol í gær og fullvissaði hann um að fréttir af því að Jose Mourinho myndi taka við starfi hans væru ósannar.

"Daniel Levy hringdi í mig og sagði mér að hann vonaðist til þess að ég starfaði með honum áfram á næsta ári og sagði ekkert til í þessum sögusögnum um Jose Mourinho. Það er gott að njóta stuðnings hans," sagði Martin Jol.

Bresku slúðurblöðin hafa haldið því fram að Tottenham hafi verið grimmast allra félaga við að hringja í Mourinho eftir að hann hætti hjá Chelsea á dögunum og að honum hafi verið boðin stjarnfræðileg laun.

Þá eru spjallsíður tengdar félaginu uppfullar af slúðri á hverjum degi þar sem nú er sagt að það sé aðeins dagaspursmál hvenær Jol verði látinn fara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×