Enski boltinn

Mourinho fékk 2,2 milljarða

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Enska pressan er uppfull af fréttum um Jose Mourinho í morgun. Hann er sagður hafa fengið 2,2 milljarða í lokagreiðslu frá Chelsea, um átján milljónir punda.

Daniel Levy, stjórnarformaður Tottenham, mun hafa boðið Mourinho starf Martin Jol, knattspyrnustjóra liðsins, ekki sjaldnar en fimm sinnum á fimmtudag.

Levy var tilbúinn að toppa launin sem Mourinho fékk hjá Chelsea og borga honum 5,3 milljónir punda í árslaun.

Enskir fjölmiðlar, til að mynda The Independent, greinir frá því í morgun að Roman Abramovich, eigandi Chelsea, hafi bætt tíu milljónum punda við starfslokasamninginn með þeim skilyrðum að hann myndi ekki starfa í ensku úrvalsdeildinni næstu tólf mánuðina.

Mourinho mun hafa samþykkt þá skilmála og beinir nú sjónum sínum að Ítalíu og Þýskalandi.

The Sun hefur í morgun eftir Jorge Mendes, umboðsmanni Mourinho, að hann hafi í höndunum tilboð frá evrópskum stórklúbbi.

Blaðið heldur því fram að það félag sé Inter Milan en liðið tapaði sínum fyrsta leik í Meistaradeild Evrópu fyrir Fenerbahce í vikunni. Roberto Mancini, núverandi stjóri liðsins, þykir valtur í sessi.

Mendes sagði einnig að knattspyrnusamband Portúgal hafi áhuga að ráða Mourinho sem landsliðsþjálfara.

„Ekkert hefur verið ákveðið. Kannski ákveður Jose að taka sér frí frá fótbolta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×