Enski boltinn

Mourinho fer í sjálfsmorðshugleiðingar ef ég spila ekki

John Terry kallar ekki allt ömmu sína
John Terry kallar ekki allt ömmu sína NordicPhotos/GettyImages

Varnarjaxlinn John Terry hjá Chelsea segist ekki ætla að láta meiðsli stöðva sig í að ná árangri á knattspyrnuvellinum - jafnvel þó það eigi eftir að koma niður á heilsu hans eftir að hann leggur skóna á hilluna.

Terry tábrotnaði fyrir skömmu en hefur ekki látið það aftra sér frá því að spila með Chelsea. "Ef meiðsl mín kosta það að ég þurfi að fara í sprautur fyrir leiki þá verður bara að hafa það. Ég missi ekki af leikjum út af neinum smámunum og ég lofa að ég mun spila alla þá leiki sem ég mögulega get. Jose Mourinho segist fara í sjálfsmorðshugleiðingar ef ég missi af leik og þannig líður mér líka. Ég veit ekki hvern fjandann ég á að gera af mér ef ég get ekki spilað. Þá líður mér eins og týndum hundi," sagði Terry, en viðurkenndi að hann hefði séð fyrrum atvinnumenn á fimmtugsaldri við lélega heilsu.

"Ég hef séð atvinnumenn um fertugt og fimmtugt sem haltra um eins og gamalmenni með ónýtar mjaðmir og léleg hné. Þannig verð ég líklega, en þetta er minn ferill og ég ræð hvað ég geri. Maður verður að færa fórnir til að ná langt," sagði Terry. "Næsta tímabil verður vonandi ekki búið fyrr en eftir úrslitaleikinn á EM 2008 og þá fær maður bara þrjár vikur í frí. Það er samt nóg fyrir mig - ég mun spila þangað til ég dett niður dauður."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×