Enski boltinn

Spáð í spilin - Tottenham - Arsenal

Darren Bent er í hópnum hjá Spurs á ný í dag
Darren Bent er í hópnum hjá Spurs á ný í dag NordicPhotos/GettyImages

Í dag há þessi lið 141. grannaslag sinn í deildinni og þann 31. síðan úrvalsdeildin var stofnuð. Tottenham leitast við að ná sínum 50. sigri gegn grönnum sínum í 156. leik liðanna. Arsenal hefur unnið þrjá af fjórum leikjum sínum í deildinni til þessa á meðan Tottenham hefur aðeins unnið einn af fyrstu fimm leikjum sínum.

Arsenal hefur gert jafntefli í síðustu fjórum útileikjum sínum í úrvalsdeildinni og þar á meðal 2-2 jafntefli við granna sína í Tottenham á White Hart Lane síðasta vor. Tottenham hefur ekki unnið Arsenal á þessari öld og hefur spilað 18 leiki við Arsenal í öllum keppnum án þess að vinna sigur.

Síðasti sigur Tottenham kom árið 1999 þegar fyrrum Arsenal stjórinn George Graham stýrði þeim hvítklæddu til 2-1 sigurs á heimavelli. Þá voru það Steffen Iversen og Tim Sherwood sem skoruðu mörk Tottenham, en þeir Martin Keown og Freddie Ljungberg voru báðir reknir af velli hjá Arsenal. Þetta var eini sigur Tottenham í síðustu 23 deildarleikjum gegn Arsenal.

Stjórarnir David Pleat, Glenn Hoddle og Jacques Santini hjá Tottenham náðu aldrei að vinna Arsenal í tíð sinni með Tottenham og nú fær Martin Jol sitt níunda tækifæri til að ná þeim árangri í deild eða bikar. Til þess að vinna Arsenal má gera ráð fyrir því að Tottenham þurfi að ná að halda hreinu, en það hefur liðinu ekki tekist nema þrisvar í síðustu 33 deildarleikjum.

Ekkert lið í úrvalsdeildinni hélt sjaldnar hreinu en Tottenham í fyrra. Tottenham hefur aðeins fengið fjögur stig úr fyrstu fimm leikjunum á leiktíðinni, en það er nákvæmlega sami árangur og í fyrra þegar liðið náði engu að síður fimmta sæti í deildinni.

Arsenal hefur unnið þrjá leiki í röð í öllum keppnum og hefur ekki tapað í 11 deildarleikjum í röð - eða síðan liðið tapaði fyrir West Ham 1-0 þann 7. apríl í vor. Arsenal fékk - og skoraði úr - fleiri vítaspyrnum en nokkuð annað lið í úrvalsdeildinni í fyrra þar sem það nýtti 10 af 12 vítum sínum. Arsenal hefur ekki náð sigri í síðustu sex útileikjum sínum og sigur þess gegn Aston Villa þann 14. mars á síðustu leiktíð var eini sigur liðsins í síðustu átta útileikjum.

Jermaine Jenas og Jermain Defoe hjá Tottenham munu báðir spila sinn 200. deildarleik á ferlinum ef þeir fá að spreyta sig í leiknum. Cesc Fabregas hjá Arsenal er markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar ásamt Nicolas Anelka hjá Bolton, en á meðan öll fjögur mörk Anelka hafa komið í deildinni hefur Fabregas skorað tvö sinna marka í Evrópukeppninni. Gilberto Silva gæti spilað sinn 150. leik ef hann spilar fyrir Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×