Enski boltinn

Spáð í spilin - Everton - Man Utd

NordicPhotos/GettyImages
Sigurvegarinn í þessum grannaslag í norð-vestrinu mun fara á toppinn í úrvalsdeildinni í að minnsta kosti 45 mínútur. Everton þarf aðeins stig til að komast á toppinn og ef liðið gerir jafntefli verður það 1000. jafntefli Everton-liðsins í efstu deild. Liðið hefur ekki tapað á heimavelli í deildinni til þessa en Manchester United hefur hinsvegar ekki unnið á útivelli enn sem komið er.

Þetta verður leikur tveggja rótgróinna liða í úrvalsdeild þar sem United hefur unnið flesta sigra frá stofnun deildarinnar (369 sigra) en Everton hefur hinsvegar tapað flestum leikjum í sögu deildarinnar (232 leikjum). United átti frábæran endasprett síðast þegar þessi lið mættust. Þá var liðið 2-0 undir eftir 50 mínútur en náði að sigra 4-2 og tryggja sér dýrmætan sigur í baráttunni um titilinn.

Everton hefur tapað aðeins einum að fyrstu fimm úrvalsdeildarleikjum sínum til þessa en hefur fengið á sig mark í þeim öllum. Manchester United hefur unnið tvo síðustu leiki sína 1-0 og voru þeir báðir á heimavelli (gegn Tottenham og Sunderland). Liðið hefur ekki unnið þrjá leiki í röð síðan það vann sjö í röð í mars. United hefur skorað meira en eitt mark í aðeins einum af síðustu 10 deildarleikjum sínum, en hefur hinsvegar ekki fengið meira en eitt mark á sig nema í einum af síðustu 11 deildarleikjum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×