Enski boltinn

Curbishley tekur undir með Benitez

NordicPhotos/GettyImages

Alan Curbishley, stjóri West Ham í ensku úrvalsdeildinni, tekur undir með Rafa Benitez hjá Liverpool og skoðanir hans á álagi á leikmenn í kring um landsleikjahlé. Hann segist alveg geta hugsað sér að fá tíma fram á sunnudag til að undirbúa lið sitt fyrir deildarleiki eftir að landsliðin spila á miðvikudagskvöldum.

Rafa Benitez hefur verið hvað duglegastur við að setja út á fyrirkomulagið hjá landsliðunum og segir ómögulegt að undirbúa lið sitt fyrir hádegisleik á laugardegi eftir að leikmennirnir eru margir hverjir búnir að fljúga gríðarlegar vegalengdir á stuttum tíma.

"Við viljum allir að landsliðunum okkar gangi vel, þetta er ekki spurning um það, en ég held að það væri fín hugmynd að færa leikina fram á sunnudag eftir svona tarnir. Ég veit ekki hvort hægt er að koma því við, en margir af leikmönnunum mæta ekki á æfingu með félagsliðum sínum fyrr en á föstudagsmorguninn og það er auðvitað eitthvað sem þarf að athuga," sagði Curbishley.

Hugmyndir hafa verið uppi um að færa landsleikina fram á þriðjudaga eða deildarleiki á Englandi aftur á sunnudaga, en ekkert slíkt hefur þó enn verið ákveðið. "Ég var með menn í mínu liði sem voru að spila í Chicago í Bandaríkjunum og í Perú í Suður-Ameríku. Það væri fínt fyrir þessa menn að spila ekki fyrr en á sunnudegi," sagði Curbishley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×