Fótbolti

Worthington: Við verðum að vera jákvæðir

NordicPhotos/GettyImages

Nigel Worthington neitar að leggja árar í bát þó hans menn Norður-Írar hafi tapað öðrum leiknum í röð í undankeppni EM í gær þegar liðið lá 2-1 fyrir Íslandi á Laugardalsvellinum. Sjálfsmark Keith Gillespie réði þar úrslitum í blálokin.

"Mér fannst liðið spila vel og það sýndi mun betri leik en gegn Lettunum um helgina. Við sköpuðum okkur færi gegn Íslandi og skoruðum eitt mark. Við verðum að halda höfðinu hátt, halda áfram að brosa og takast á við verkefnin framundan. Þetta er ungt lið sem við erum með og þeir geta orðið mjög góðir í framtíðinni," sagði Worthington og hughreysti þá Gillespie og Chris Baird, sem báðir urðu fyrir því óláni að skora rándýr sjálfsmörk í tapleikjunum tveimur.

"Þetta var rosalega súrt en þetta kemur fyrir í fótbolta. Keith var alveg jafn óheppinn og Chris í Lettlandi - það er ekki hægt að útskýra svona óheppni. Ég var annars ánægður með það hvernig leikmennirnir bættu sig milli leikja. Þeir unnu vel og börðust eins og ljón," sagði Worthington, en Írarnir eiga nú gríðarlega erfiða leiki eftir í riðlinum þar sem þeir eiga eftir að sækja Spánverja og Svía heim - og mæta svo Dönum á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×