Enski boltinn

McClaren hrósar Michael Owen

NordicPhotos/GettyImages

Steve McClaren, landsliðsþjálfari Englendinga, segir að hann hafi aldrei efast eitt augnablik um hæfileika framherjans Michael Owen eftir að hann skoraði tvö mörk í sigri Englendinga á Rússum í gær. Owen skoraði því þrjú mörk í landsleikjunum tveimur í vikunni, en McClaren var nokkuð gagnrýndur fyrir að setja hann beint í byrjunarliðið.

"Ég afskrifaði hann aldrei og vissi alltaf að hann yrði okkur mikilvægur. Michael er óðum að komast í sitt fyrra form. Við vildum fá sex stig út úr þessum tveimur leikjum og náðum í þau. Ég er ánægður með frammistöðu liðsins en við verðum að halda áfram á sömu braut því verkefnið er ekki búið," sagði McClaren.

Owen sjálfur var að vonum ánægður með afrakstur vikunnar, en hann hefur nú skorað 40 mörk fyrir England í 85 leikjum og er fjórði markahæsti enski landsliðsmaðurinn frá upphafi á eftir þeim Bobby Charlton (49 mörk), Gary Lineker (48 mörk) og Jimmy Greaves (44 mörk).

"Ég er búinn að spila fyrir England í næstum tíu ár og vonandi fæ ég nokkra leiki í viðbót. Það er frábær áfangi að ná í 40 mörk en það skiptir litlu máli ef við erum ekki að vinna góða sigra eins og raunin var að þessu sinni," sagði Owen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×