Enski boltinn

Everton lagið verður leikið á Anfield í kvöld

Foreldrar og bróðir Rhys Jones sameinuðust stuðningsmönnum Everton í einnar mínútu þögn í leiknum gegn Blacburn um helgina.
Foreldrar og bróðir Rhys Jones sameinuðust stuðningsmönnum Everton í einnar mínútu þögn í leiknum gegn Blacburn um helgina.

Það verður ekki hið hefðbundna You´ll Never Walk Alone sem leikið verður þegar leikmenn Liverpool og Toulouse ganga inn á Anfield í kvöld fyrir leik þeirra í forkeppni meistaradeildar Evrópu.

Þess í stað verður lagið Johnny Todd leikið, en það er lag sem jafnan er leikið við sama tilefni á Goodison Park, heimavelli erkifjendanna í Everton. Þetta verður gert til að heiðra minningu hins níu ára Rhys Jones sem skotinn var til bana í Croxteth hverfinu í Liverpool í síðustu viku.

Hinn ungi Jones var nefnilega harður Everton stuðningsmaður.

Stjórnarformaður Liverpool, Rick Parry, hefur rætt við fjölskyldu Rhys Jones og í kjölfarið á því var ákvörðun tekin um að votta minningu hans heiður með þessum hætti.

Hugmyndin kom fyrst fram í dagblaðinu The Liverpool Echo og hlaut strax mikinn stuðning á meðal borgarbúa.

Eins og fyrr segir var Rhys Jones mikill Everton stuðningsmaður. Hann átti ársmiða á heimavöll liðsins, Goodison Park, en leikmenn liðsins hafa undanfarna daga tekið þátt í ýmis konar minningarathöfnum um drenginn.

Foreldrar hans og bróðir voru einnig viðstaddir leik Everton og Blacburn sem fram fór um helgina en þá sameinuðust áhorfendur og leikmenn í einnar mínútu þögn til að minnast Rhys Jones

Leikur Liverpool og Toulouse hefst klukkan 19:00 í kvöld og verður sýndur í beinni útsendingu á Sýn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×