Enski boltinn

Davies vongóður um að Diouf og Anelka verði áfram

Aron Örn Þórarinsson skrifar
NordicPhotos/GettyImages

Kevin Davies, framherji Bolton, er vongóður um að liðið haldi Nicolas Anelka og El-Hadji Diouf í sínum röðum en leikmennirnir hafa stöðugt verið orðaðir við önnur lið. Anelka hefur verið orðaður við Manchester United og Manchester City og Diouf hefur greint frá því að hann vilji fara til liðs sem spilar í Meistaradeild Evrópu eða hefur metnað til að spila þar að ári.

Leikmannaglugginn lokar um mánaðarmótin og Davies telur að einu leikmannamálin sem muni eiga sér stað í þessari viku verði að fleiri leikmenn koma til liðsins en engir leikmenn fari frá félaginu. „Ég er mjög vongóður um að þeir verði áfram," sagði Davies við SkySports. „Á laugardaginn verður loksins komið í ljós hvernig leikmannahóp við verðum með, kannski bætast við einn eða tveir leikmenn fyrir helgi."

Bolton náði sínum fyrstu stigum um helgina þegar liðið lagði Reading með þremur mörkum gegn engu. Davies, sem er meiddur eins og er, sagði að sigurinn hafi verið ótrúlega mikilvægur. „Þetta voru frábær úrslit fyrir okkur. Við urðum að vinna þennan leik. Það var mikil pressa fyrir leikinn og frammistaða liðsins var stórkostleg. Við skoruðum þrjú mörk og spiluðum góðan bolta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×