Enski boltinn

Wenger ánægður með byrjun Arsenal

Aron Örn Þórarinsson skrifar
NordicPhotos/GettyImages

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal er ánægður með byrjun sinna manna á tímabilinu en liðið er komið með sjö stig eftir þrjá leiki. Wenger segir að lið sitt hafi lært af mistökunum frá því í fyrra en þá var Arsenal aðeins með tvö stig eftir þrjá leiki. Wenger segir að liðið hafi aldrei jafnað sig eftir slæma byrjun í fyrra og hann segir það vera mjög mikilvægt að byrja þetta tímabil vel.

„Á sama tíma í fyrra vorum við bara með tvö stig og fundum strax fyrir andlegri pressu," sagði Wenger. „Lið eins og Manchester United er nógu stórt til að koma til baka eftir slæma byrjun en við erum með ungt lið og þetta var erfitt fyrir okkur. Það var því mikilvægt að byrja þetta tímabil vel og við höfum gert það."

Wenger telur Arsenal eiga erfitt verkefni fyrir höndum ætli liðið að tryggja sér eitt af fjórum efstu sætunum, og tryggja sér þar með sæti í Meistaradeild Evrópu. Franski stjórinn segir að mörg lið hafi bætt sig mikið sem muni gera það að verkum að fleiri lið muni berjast um þátttökurétt í Meistaradeildinni.

„Ég held að það séu átta til níu lið sem geta barist fyrir sæti í Meistaradeildinni," bætti Wenger við. „Þetta er mjög opið því að margir nýjir fjárfestar eru komnir í boltann. West Ham hafa metnað. Aston Villa hafa metnað. Everton er með gott lið sem og Newcastle. Það verður erfiðara en áður að ná einu af fjórum efstu sætunum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×