Enski boltinn

Wenger: Vissi að við myndum skora

Elvar Geir Magnússon skrifar
Cesc Fabregas fagnar marki sínu í dag.
Cesc Fabregas fagnar marki sínu í dag.

Cesc Fabregas varð fyrstur til að ná að skora á móti Manchester City. Hann skoraði eina markið þegar Arsenal vann 1-0 heimasigur gegn City í dag en Lundúnaliðið er nú komið með sjö stig í deildinni. Fyrir leikinn hafði City unnið alla þrjá leiki sína.

„Ég hafði það á tilfinningunni allan tímann að við næðum að skora. Við börðumst allt til loka en við vissum það fyrir leikinn að Manchester City er sterkt lið að við þyrftum að ná fram góðum leik. City varðist vel og við vorum nokkuð óörruggir í byrjun," sagði Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal.

Manchester City lék vel í leiknum en á 65. mínútu náði Arsenal undirtökunum. Kasper Schmeichel varði þá vítaspyrnu frá Robin van Persie sem dæmd var eftir að Micah Richards braut á Alexander Hleb. Við það vöknuðu heimamenn og náðu öllum þremur stigunum. Eina mark leiksins kom á 80. mínútu.

„Það eru vonbrigði að við töpuðum leiknum en við náðum að skapa okkur nokkur góð færi. Við verðum að halda haus, lífið heldur áfram. Strákarnir gerðu flotta hluti þrátt fyrir að við fengum ekkert út úr þessum leik," sagði Sven Göran Eriksson, stjóri Manchester City.

„Ég er mjög bjartsýnn. Við vissum það alveg að í ensku úrvalsdeildinni myndi ég ekki vinna alla leiki. Það er ekki gott að tapa en það er samt góð tilfinning að veita Arsenal svona mikla samkeppni á þeirra heimavelli."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×