Enski boltinn

Lee kennir Allardyce um slæmt gengi Bolton

Aron Örn Þórarinsson skrifar
Sammy Lee gæti orðið atvinnulaus bráðlega ef hann nær ekki betri árangri með Bolton.
Sammy Lee gæti orðið atvinnulaus bráðlega ef hann nær ekki betri árangri með Bolton. NordicPhotos/GettyImages

Sammy Lee, knattspyrnustjóri Bolton, segir að hann eigi enga sök á lélegu gengi liðsins það sem af er leiktíðar. Hann heldur því fram að vandamálin séu sök Sam Allardyce, fyrrverandi knattspyrnustjóra liðsins. Allardyce sagði upp þegar aðeins tveir leikir voru eftir af síðasta tímabili og þá tók Lee við stjórnartaumunum, en hann var aðstoðarþjálfari hjá félaginu.

Bolton náði aðeins einu stigi úr þessum tveim leikjum undir stjórn nýja stjórans. Bolton hefur tapað fyrstu þrem leikjunum á þessu tímabili og liðið því aðeins náð í eitt stig af 15 mögulegum undir stjórn Lee.

„Þetta vandamál hefur varað lengi núna," sagði Lee. „69% af stigum okkar á síðasta tímabili komu í kringum jólin og við fengum aðeins 17 stig eftir það. Ég segi því að vandamálið hafi byrjað áður en ég tók við. Ég hef unnið gífurlega mikið til að finna út hvað er að, bæði á vellinum og utan hans."

Veðbankar á Englandi telja Lee vera líklegastan til að verða fyrsti stjórinn til að taka pokann sinn á þessu tímabili, enda getur árangur hans ekki talist góður eftir að hafa fengið tólf nýja leikmenn til félagsins í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×