Enski boltinn

Jens Lehmann frá vegna meiðsla næstu tvær vikur

Aron Örn Þórarinsson skrifar
Jens Lehmann hefur ekki staðið sig vel það sem af er tímabili.
Jens Lehmann hefur ekki staðið sig vel það sem af er tímabili. NordicPhotos/GettyImages

Jens Lehmann, markvörður Arsenal og þýska landsliðsins, verður frá vegna meiðsla á hásin næstu tvær vikur að minnsta kosti. Lehman mun missa af deildarleikjum gegn Manchester City og Portsmouth auk þess að hann missir af seinni leiknum gegn Sparta Prague í forkeppni Meistaradeildar Evrópu.

„Jens er meiddur og mun missa af næstu tveimur vikum held ég. Kannski meira, ég veit það ekki," sagði Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal. „Hann mun fara til Þýskalands að hitta sérfræðing til að fá bót meina sinna. Hann hefur fundið fyrir þessum meiðslum áður en nú er þetta orðið miklu verra."

Lehmann hefur gert stór mistök í báðum leikjum Arsenal það sem af er þessu tímabili sem kostuðu mark. Gegn Fulham í fyrsta leiknum sendi hann boltann á David Healy, sóknarmann Fulham, sem átti ekki erfitt með að koma boltanum yfir marklínuna, og svo í leiknum gegn Blackburn um síðustu helgi gerði hann mistök þegar hann náði ekki að verja skot David Healy.

Talið er að Wenger muni stilla Manuel Almunia í markið en hafa Lukasz Fabianski á bekknum á meðan Lehmann verður frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×