Innlent

Fjögurra manna fjölskylda borgar 10 þúsund

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lárus Welding og Vilhjálmur Þórmundur Vilhjálmsson kynna Reykjavíkurmaraþonið
Lárus Welding og Vilhjálmur Þórmundur Vilhjálmsson kynna Reykjavíkurmaraþonið Mynd/ Anton Brink
Það kostar fjögurra manna fjölskyldu rúmar 10 þúsund krónur að taka þátt í 10 kílómetra skokki í Reykjavíkurmaraþoninu sem fram fer á laugardaginn.

Þátttaka í heilu maraþoni kostar 4500 krónur. Glitnir niðurgreiðir ekki kostnað þátttakenda en greiðir fyrir markaðssetningu hlaupsins, að sögn Svövu Oddnýjar Ásgeirsdóttur, starfsmanns Reykjavíkurmaraþons.

Svava Oddný segir að þátttakendur fái heilmikið fyrir þátttökugjaldið. Meðal annars góðan bol og höfuðbuff. Þá sé öllum boðið í pastaveislu og allir fái verðlaunagrip og vatn. Hún bendir jafnframt á að það kosti sitt að halda úti þeirri öryggisgæslu og sjúkragæslu sem nauðsynleg sé vegna maraþonsins. Um þrjú hundruð manns starfa við hlaupið að sögn Svövu.

Liðlega 5.000 hlauparar höfðu skráð sig í hlaupið í gærkvöld. Það eru um þúsund fleiri en á sama tíma í fyrra. Af þessum hópi eru 830 erlendir hlauparar, nokkru fleiri en 2006. Svava segir að öll þátttökumet verði slegin þetta árið. Á sjötta hundrað manns taki þátt í 42 kílómetra hlaupinu en sá fjöldi náði ekki upp í 500 í fyrra. Einnig sé metþátttaka í öðrum vegalengdum. Svava hvetur þátttakendur til að skrá sig sem fyrst en skráningu á Netinu lýkur klukkan átta á morgun og þá hækkar þátttökugjald.

Svava segir að mikil stemning sé fyrir hlaupinu á laugardaginn. Von sé á þekktum hlaupurum erlendis frá, þar á meðal fyrrum ólympíumeisturum. Þá ætli ýmsir hópar að taka þátt í mótinu og nefnir Svava sem dæmi að gjörgæsludeildir á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi hafi ákveðið að skora á hvor aðra í hlaupinu. Einnig hafi starfsfólk ráðuneytana ákveðið að fjölmenna.

Þetta er í 24. skipti sem Reykjavíkurmaraþon er haldið og segir Svava að hlaupið verði sífellt vinsælla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×