Innlent

Deiliskipulagi fyrir HB Granda nýlega breytt

Stjórn HB Granda hefur ákveðið að hætta allir fiskvinnslu í Reykjavík og flytja hana upp á Akranes. Stjórnarformaður Faxaflóahafna segir ákvörðunina koma sér á óvart þar sem forsvarsmenn fyrirtækisins höfðu þrýst á að fá stærra svæði undir starsemi sína á Norðurgarðinum og deiliskipulaginu var breytt miðað við það síðastliðið vor.

Eggert Guðmundsson, forstjóri fyrirtækisins, segir ástæðuna þá að þorskkvóti félagsins dragist það mikið saman á næsta fiskveiðiári, vegna ákvörðunar sjávarútvegsráðherra um að skerða þorskkvóta, að bein sókn í þorsk verði ómöguleg fyrir fyrirtækið. Þorskkvóti HB Granda fer úr 7800 tonnum í 5200 tonn og verður þorskur aðeins veiddur sem meðafli. Eina þorskveiðiskip félagsins, ísfisktogarinn Sturlaugur H. Böðvarsson, mun því snúa sér að ufsa- og karfaveiðum.

Þessi ákvörðun þýðir að þorskvinnsla í landi skreppur verulega saman en henni hefur hingað til verið sinnt í fiskiðjuveri HB Granda á Akranesi. Að sögn Eggerts verður sú breyting nú á að hluti ufsaaflans verður unninn þar en hann hefur hingað til verið unnin í Reykjavík ásamt karfa.

Stjórn HB Granda hefur óskað eftir því við stjórn Faxaflóahafna að gerð nýrrar landfyllingar og hafnargarðs á Akranesi verði flýtt svo félagið geti reist þar fiskvinnsluhús. Það á að vera eftir um tvö ár

Um eitthundrað og tuttugu manns starfa hjá HB Granda í Reykjavík. Eggert segir að ekki komi til fjöldauppsagna á næstu tveimur árum en óljóst sé hversu mörg störf verða í boði þegar fiskvinnslan tekur til starfa á Akranesi.

Björn Ingi Hrafnsson, stjórnarformaður Faxaflóahafna, segir ákvörðun HB Granda koma sér á óvart. Síðastliðinn vetur hafi fyrirtækið farið fram á að fá tvær lóðir á Norðurgarðinum þar sem fyrirtækið taldi sig þurfa stærra svæði fyrir starsemi sína. Í vor samþykkti hafnarstjórn svo nýtt deiliskipulag þar sem komið var til móts við kröfur HB Granda. Í erindinu sem stjórn Faxaflóahafna fékk frá HB Granda í morgun, vegna svæðisins á Akranesi, kemur fram að fyrirtækið óskar jafnframt eftir því að halda þeim lóðum sem það hafði sótt um að fá á Norðurgarðinum. Björn Ingi segir ljóst að fyrirtækið fái ekki lóðir þar eftir að hafa tilkynnt að það ætli að flytja starfsemi af svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×